Umsögn BHM um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna

Ganga þarf lengra í því að styrkja háskólanema

 

5.12.2019

  •  

BHM fagnar áformum stjórnvalda um að taka upp blandað kerfi lána og styrkja í stað núverandi námslánakerfis. Engu að síður telur bandalagið að ganga eigi lengra í því að styrkja námsmenn en lagt er til í frumvarpi til laga um Menntasjóð námsmanna. Þá telur BHM nauðsynlegt að sett verði ákveðið þak á vexti námslána í nýju kerfi. Enn fremur lýsir BHM furðu á því að ekki sé í frumvarpinu komið í veg fyrir að námsmenn framtíðarinnar þurfi að greiða af námslánum eftir að starfsævinni lýkur.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna sem mun, verði frumvarpið að lögum, leysa af hólmi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í umsögn BHM um frumvarpið er því fagnað að ætlunin sé að taka upp blandað kerfi námsstyrkja og námslána. Styrkur til námsmanna mun samkvæmt frumvarpinu einkum felast í því að veittur verður 30% afsláttur af höfuðstól námsláns ef námsmaður lýkur námi innan ákveðinna tímamarka. Í umsögninni er bent á að í Noregi sé sambærilegur afsláttur 40%: „Að mati bandalagsins ættu íslensk stjórnvöld að hafa metnað til að haga fyrirkomulagi námsstyrkja þannig að það standist samanburð við það sem best gerist meðal nágrannaþjóða.“

Stuðningur við barnafólk verði alfarið í formi styrks

Einnig bendir BHM á að í Noregi fái námsmenn afslátt af höfuðstól námslána í lok hverrar annar ef kröfur um námsframvindu eru uppfylltar. Þetta þýði að námsmaður njóti ávinnings af eðlilegri námsframvindu jafnóðum og ekki einungis þegar námi lýkur. BHM telur slíkt fyrirkomulag heppilegra en það sem frumvarpið kveður á um: „BHM hvetur löggjafann til að skoða þetta atriði sérstaklega um leið og mat er lagt á það hvort stuðningskerfi við námsmenn sé nægilega vel fjármagnað hérlendis.“

Í frumvarpinu er kveðið á um að stuðningur við námsmenn með börn verði blanda af styrkjum og lánum. BHM telur að stuðningur vegna barna námsmanna eigi alfarið að vera í formi styrks: „Engu að síður fagnar BHM því að styrkja eigi barnafólk í námi og meðlagsgreiðendur. Þessi breyting gerir allt námsstuðningskerfið fjölskylduvænna og nútímalegra.“

Námsmenn beri ekki kostnaðinn af mögulegum efnahagsáföllum

Samkvæmt frumvarpinu verða vextir á námslánum breytilegir. Í umsögn BHM er vakin athygli á því að íslenskt samfélag hafi til þessa einkennst af miklum sveiflum, með tilheyrandi verðlags- og vaxtabreytingum. Nauðsynlegt sé að löggjafinn taki af allan vafa um að greiðendur námslána verði ekki látnir bera kostnaðinn af mögulegum efnahagsáföllum í framtíðinni. BHM mælist því eindregið til þess að sett verði vaxtaþak á námslán, eins og í núgildandi kerfi: „Þannig yrði hafið yfir vafa að ríkissjóður myndi eftir sem áður taka á sig kostnað vegna mögulegra efnahagsáfalla í framtíðinni og slíkum kostnaði yrði ekki velt yfir á námsmenn.“

Ekki tryggt að allir nái að greiða upp lán sín fyrir 65 ára aldur

Eitt markmiða frumvarpsins er að enginn greiði af námsláni eftir 65 ár aldur. BHM fagnar þessu markmiði enda hefur bandalagið lengi barist fyrir því að eftistöðvar námslána falli niður við starfslok. Samkvæmt frumvarpinu munu lántakar eiga þess kost, áður en þeir ná 35 ára aldri, að velja hvort afborganir lána verði tekjutengdar eða ekki. BHM er eindregið fylgjandi því að lántakar hafi þennan valkost í nýju kerfi. Hins vegar er í umsögninni bent á að þetta muni að óbreyttu leiða til þess að fyrrnefnt markmið frumvarpsins náist ekki. Þótt flestir lántakar muni ná að greiða upp lán sín fyrir 65 ára aldur muni hluti þeirra eftir sem áður ekki ná því, þ.e. fólk sem tekur há lán og velur að tekjutengja afborganir. BHM telur raunar (og styðst þar við eigin útreikninga) að stór hópur lántaka muni velja að tekjutengja sín námslán: „BHM harmar að við heildarendurskoðun á námslánakerfinu sé ekki stigið það nauðsynlega skref að koma í veg fyrir að námsmenn framtíðarinnar greiði af námslánum eftir að starfsævinni lýkur. Ef viðráðanlegar tekjutengdar afborganir námslána nægja ekki til að ljúka greiðslum námslána fyrir starfslok er ljóst að stuðningur við námsmenn er ekki nægur og úr því verður aðeins bætt með frekari fjárframlögum.“

Annað markmið frumvarpsins er að jafna þann óbeina styrk sem felst í núverandi kerfi milli námsmanna. Bent hefur verið á að þessi óbeini styrkur sé á bilinu 1% og upp í 85% af fjárhæð láns. Í umsögn BHM er vakin athygli á því að vegna tekjutekingarinnar muni eftir sem áður, verði frumvarpið að lögum, fjöldi lántaka fá meiri stuðning en aðrir í formi niðurfellingar námslána við andlát.

Fjallað er um ýmis fleiri atriði í frumvarpinu í umsögn BHM.