Áhrif Covid 19 á íslenskan tónlistariðnað – skýrsla

- Gunnar Hrafnsson

Kæru félagsmenn,

 

við hjá FÍH höfum verið í samstarfi við önnur hagsmunafélög tónlistarmanna um gerð skýrslunnar sem hér fylgir að neðan. Tilgangurinn er að draga saman hvað gerst hefur vegna Covidfársins og að herða á stjórnvöldum um hvað þau þurfi að gera í framhaldinu.

 

Hér er texti fréttatilkynningar sem fór á fjölmiðla í gær og skýrslan fylgir með í PDF formi: Ahrif Covid

 

Áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað

Út er komin skýrsla um áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað. Skýrslan er unnin fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag íslenskra hljómplötuframleiðenda, Samtök flytjenda og hljómplötuframleiðenda, STEF, Tónlistarborgina Reykjavík og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Skýrslan var unnin í apríl, maí og júní.

Í skýrslunni er farið yfir þær áskoranir sem íslenskur tónlistariðnaður stendur frammi fyrir í kjölfar COVID-19, fjallað um þau úrræði og aðgerðir sem ríki og borg hafa ráðist í og tillögur að frekari aðgerðum lagðar fram. Fjallað er um áhrif heimsfaraldursins á tónlistarfólk, tónleikastaði, tónlistarhátíðir, tónleikahaldara og ýmis fyrirtæki í viðskiptaumgjörðinni, svo sem hljómplötuverslanir, hljóðver og umboðs- og bókunarskrifstofur. 

Skýrslan er aðgengileg á tonlistartolur.is sem er nýr samstarfsvettvangur þeirra aðila sem standa að skýrslunni þar sem birtar verða skýrslur og tölfræðiupplýsingar um íslenskan tónlistariðnað. Þar má einnig nálgast samantekt á helstu áskorunum og aðgerðum sem fjallað er um í skýrslunni.

Við gerð skýrslunnar voru tillögur mótaðar sem talið er að muni hafa sem mest áhrif til stuðnings tónlistariðnaðinum. Tillögunum er skipt upp í neyðaraðstoð, sem er hugsuð sem viðbrögð við beinum áhrifum COVID-19 og snýr að mestu leyti að opinberri aðstoð, styðjandi aðgerðir, sem eru aðgerðir til að styrkja tónlistariðnaðinn á viðkvæmum tímum og eru samspil aðgerða hins opinbera og samtaka og verkefna innan tónlistariðnaðarins og að lokum aðgerðir innviða, sem innihalda tillögur um aðgerðir sem tónlistariðnaðurinn sjálfur þyrfti að ráðast í.

Í skýrslunni kemur fram að íslenskt tónlistarlíf þarf á öflugum stuðningi að halda í kjölfar heimsfaraldursins og áhersla er lögð á aðgerðir sem beinast að tónlistinni sem atvinnugrein. Skýrslan varpar ljósi á aðstæður fólks sem starfar í íslenskum tónlistariðnaði og ekki síst þeirra sem starfa á bakvið tjöldin, við það að styðja við það frábæra og hæfileikaríka tónlistarfólk sem við eigum hér á landi.

 

Bestu sumarkveðjur,

 

Starfsfólk FÍH