Samstarf tveggja félaga og Starfsmenntunarsjóður tónlistarskólakennara

Síðastliðin ár hefur mikill tími stjórnar FÍH farið í það að verjast ásökunum Félags tónlistarskólakennara (FT) um slit á samstarfi og er allt tínt til til að gera starf FÍH tortryggilegt

Vegna ítrekaðra bréfasendinga frá formanni og stjórn FT til sinna félagsmanna þar sem stjórn Félags íslenskra hljómlistarmanna er gerð ábyrg fyrir því að félögin vinna ekki lengur saman viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

  • Stjórn FÍH hefur aldrei sagt upp samstarfssamningi félaganna 
  • Stjórn FÍH hefur aldrei sagt upp samstarfi vegna Starfsmenntunarsjóðs FT og FÍH 
  • Stjórn FÍH hefur aldrei sagt upp samstarfi vegna kjarasamninga félaganna
  • Stjórn FÍH hefur aldrei lýst því yfir að FÍH væri gæsluaðili Starfsmenntunarsjóðs FT og FÍH
  • Stjórn FÍH hefur aldrei reynt að stela félagsmönnum FT yfir í FÍH. Stjórn FÍH býður þá hinsvegar velkomna ef þeir vilja koma.
  • Stjórn FÍH hefur aldrei vélað til sín félagsmenn FÍO eða FÍT.  Þau félög komu inn í FÍH að eigin frumkvæði og að undangenginni lýðræðislegri kosningu þess efnis
  • Sáttafundur, haldinn að frumkvæði FÍH 17. Desember 2012, varð árangurslaus og stjórn FT boðaði skilyrðislaus samstarfsslit. 
  • Nokkru síðar boðaði stjórn FÍH aftur  til sameiginlegs fundar og á þann fund mætti stjórn FT ásamt fyrrverandi formanni KÍ, Eiríki Jónssyni.  Aftur var kallað eftir samstarfi og aftur var því hafnað. 
  • Að tillögu Sáttasemjara Ríkisins var kjaranefnd FÍH tilbúin til að setjast niður með samninganefnd FT og SNS til þess að ræða sameiginlega aðkomu félaganna að kjarasamningi.  Þessu hafnaði formaður FT alfarið.
  • Á fundi STS (Samtök skólastjórnenda á landsvísu) í haust voru formenn félaganna spurðir hvort þeir væru tilbúnir að vinna sameiginlega að kjarasamningi tónlistarskólakennara eða draga sig í hlé frá samningum ella.  Formaður FÍH svaraði báðum spurningum játandi en formaður FT hinsvegar neitandi 
  • Stjórn FÍH hefur  svarað bæði STÍR og STS vegna bréflegrar fyrirspurnar um samstarf við FT.  Svar FÍH er alltaf hið sama: Félagið er ávallt tilbúið til samstarfs um kjarasamning.

Starfsmenntunarsjóðurinn 

Hvað varðar Starfsmenntasjóð tónlistarskólakennara, þá var samkomulagi um rekstur hans sagt upp af hálfu FT fyrir tveimur árum.  Síðan það gerðist höfum við hjá FÍH vonað að stjórn FT sæi að sér og hætti við stofnun nýs sjóðs.  Nú er hins vegar svo komið að FT er komið með ákvæði inn í sinn kjarasamning sem segir að greiða skuli 1.72%  inn í nýjan starfsmenntunarsjóð FT frá og með 1.nóvember 2014.  Þetta þýðir einfaldlega að rof hefur orðið á réttindum félagsmanna FT gagnvart gamla sjóðnum ogréttur þeirra til að sækja í hann er fallinn niður. Félagsmenn FÍH greiða hinsvegar áfram í gamla sjóðinn og halda fullum réttindum.   

Þessi niðurstaða er byggð á áliti sem FÍH fékk frá lögmannsstofunni Mandat og er þess efnis að ekki verði fluttir peningar á milli sjóða að óbreyttum lögum. Hæstaréttardómur um samskonar efni er tiltölulega nýfallinn: Hjúkrunarfræðingar fengu því ekki framgengt að skipta upp sjóði hjá BHM er þeir gengu úr samtökunum. Efnislega þýðir álitið, að hvorki félagsmenn FÍH eða FT eru eigendur sjóðsins. Starfsmenntunarsjóður á sig í raun sjálfur og  og veitir þeim sem í hann greiða rétt til að sækja um styrk. Sá réttur fellur niður þegar viðkomandi hættir að greiða.

En hvers vegna fékk FÍH sér lögfræðilegt álit?  Við því  er einfalt svar.  Okkur ber að gæta réttinda félagsmanna okkar og til þess leitum við eðlilegra og lögmætra leiða. Meðferð Starfsmenntunarsjóðs verður ekki öðruvísi en lög kveða á um.  

FÍH hefur unnið að heilindum fyrir tónlistarskólakennara og tekið þátt í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum. Félagið tók fullan þátt í verkfallsaðgerðum félaganna 2001 sem vöktu athygli samfélagsins fyrir málefnalega  og árangursríka baráttu. Sameiginlega náðu félögin góðum árangri.

Núna er hins vegar staðan sú, að við semjum ekki saman, eigum ekki sameiginlegan starfsmenntunarsjóð, sameiginleg svæðisþing eru aflögð, samstarf um Nótuna er á enda og spurning er hvað verður um Prófanefndarsamstarf?

Stjórn FÍH harmar mjög að samstarf þessara tveggja félaga hafi lokið á þennan hátt og við vonum að í framtíðinni verði heildarhagsmunir tónlistarskólakennara látnir stjórna ferðinni. 

Stjórn FÍH


Meðfylgjandi gögn:

Álit frá Lögmannsstofunni Mandat, heildarútgáfa

Fundargerð frá fundi um málefni Starfsmenntunarsjóðs tónlistarkennara þ. 28.janúar