Hrafn Pálsson er látinn

Hrafn Pálsson, fyrrverandi skrifstofustjóri og hljómlistarmaður, lést miðvikudaginn 2. nóvember, 80 ára að aldri.
Hrafn var fæddur í Reykjavík 17. maí 1936, sonur hjónanna Margrétar Árnadóttur (1907-2003) og Páls Kr. Pálssonar (1912-1993), organista í Hafnarfirði. Hrafn ólst að mestu upp í Reykjavík en bjó um tíma í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Edinborg á meðan faðir hans stundaði þar orgelnám. Hann var í grunnskóla í Reykjavík, Hafnarfirði og á Núpi. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en hætti því til að sinna tónlistinni. Síðar lauk hann námi frá öldungadeild Menntaskólans við
Hamrahlíð. Hann lauk BS-gráðu árið 1979 og MA-gráðu í félagsráðgjöf árið 1981 frá Adelphi University í Garden City í New York. Hrafn starfaði í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu frá árinu
1981, fyrst við forvarnir vímuefna en lengst af sem deildarstjóri og síðar skrifstofustjóri öldrunarmála, þar til hann lét af störfum vegna aldurs.
Hrafn var mikilvirkur tónlistarmaður og mjög áberandi í tónlistarlífinu á árunum 1960-1980. Hann lék á píanó og bassa með ýmsum hljómsveitum auk sinnar eigin. Hrafn var ötull baráttumaður um bættan hag hljómlistarmanna, sæmdur gullmerki FÍH, sat um árabil í stjórn Stefs, einn stofnenda Freeport-klúbbsins, var virkur í Rótarýklúbbnum Breiðholti og var Paul Harris-félagi þar. Eftirlifandi eiginkona Hrafns er Vilborg G. Kristjánsdóttir, fædd 1930. Fóstursonur er Jóhann Gísli Jóhannsson, fæddur 1968. Sonur Hrafns úr fyrra hjónabandi er Halldór, fæddur 1960.
Útför Hrafns verður gerð frá Neskirkju þriðjudaginn 15. nóvember næstkomandi klukkan 13.hrafn-palsson