Íslensku tónlistarverðlaunin 2016

Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í gær.
Veitt voru verðlaun í rúmlega 30 flokkum, en flest verðlaun hlaut rapparinn Emmsjé Gauti, eða fimm talsins. 

Íbúar Hörpu hlutu allir verðlaun á hátíðinni.

Stórsveit Reykjavíkur var valin Tónlistarflytjandi ársins í flokknum djass/blús
Einstaklega metnaðarfull og fjölbreytt verkefni á árinu. Stórsveitin hefur verið öflug í að fá til liðs við sig innlend sem erlend tónskáld og hefur haldið uppi reglulegu og öflugu tónleikastarfi.

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands var valin Bjartasta vonin í flokki sígildrar og samtímatónlistar
Ungsveitina skipa fremstu hljóðfæranemar landsins og er þeim í aðdraganda tónleika gert kleift að vinna undir leiðsögn frábærra listamanna og kynnast vinnubrögðum eins og þau gerast hjá atvinnuhljómsveitum um allan heim.

Íslenska Óperan fékk þrenn verðlaun í flokki sígildrar og samtímatónlistar fyrir uppfærslu sína á Évgení Onegin eftir Tchaikovsky.

Tónlistarviðburður ársins
Íslenska óperan flutti Évgeni Onegin í annað sinn og verður sýningin að teljast stórviðburður í sögu Íslensku óperunnar. Flutningur söngvara, kórs og hljómsveitar í styrkri leik- og hljómsveitarstjórn var af hæstu gæðum og gerði sýninguna að einni af bestu uppfærslum ÍÓ í Hörpu. Flutningurinn á frummálinu, rússnesku, ljáði tónmáli Tschaikovskys sannan lit. Sýningin einkenndist af fegurð og fágun bæði sjón- og hljóðrænt og var einstök upplifun.

Söngkona ársins – Þóra Einarsdóttir fyrir hlutverk sitt sem Tatyana
Þóra Einarsdóttir sýndi og sannaði að hún er ein fremsta sópransöngkona okkar í dag. Þóra var einstaklega trúverðug sem hin saklausa en líka harmi þrungna unga rússneska kona. Mikið litróf raddarinnar og hrífandi leikur einkenndu flutning hennar og sérlega góð skil á rússneskri tungu. Þetta var sannur leik- og söngsigur fyrir Þóru Einarsdóttur.

Söngvari ársins – Elmar Gilbertsson fyrir hluverk sitt sem Lensky
Elmar Gilbertsson hefur á síðustu árum sannað sig sem einn af fremstu tenórsöngvurum okkar. Í hlutverki Lenskis söng hann sig enn og aftur inn í hjörtu áhorfenda. Raddfegurð og góð skil á hinum rússneska stíl einkenndu flutning hans.

Rut Ingólfsdóttir, fiðluleikari tók svo við heiðursverðlaunum fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Rut var konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og Bachsveitarinnar í Skálholti. Hún starfaði ennfremur í Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi. Hún hefur haldið fjölda einleikstónleika, gefið út sólóplötur og fjölda hljómdiska í samstarfi við aðra. Hún er einn af 12 stofnendum Kammersveitar Reykjavíkur og listrænn stjórnandi í 40 ár.

Hér er hægt að skoða lista yfir alla verðlaunahafa.ÍTV lógó-1