Sígildir sunnudagar 2018-2019: Opið fyrir umsóknir til 12. mars 2018

 

Harpa tónlistar-og ráðstefnuhús auglýsir eftir þátttakendum í tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar veturinn 2018-2019.

Sígildir sunnudagar eru regnhlífarhugtak yfir klassískar tónleikaraðir og staka viðburði í Norðurljósum, Kaldalóni og opnum rýmum á sunnudögum kl 16:00, frá september 2018 til maíloka 2019. Athugið að tímasetning tónleikanna hefur færst fram um klukkustund frá tónleikaárinu 2017-2018.

Með röðinni gefst áheyrendum kostur á fyrsta flokks kammertónleikum vikulega í Hörpu. Lögð er áhersla á fjölbreytt úrval tónleika með sígildri söng- og hljóðfæratónlist.

Sem fyrr er skipulag tónleika í höndum tónlistarhópanna sjálfra en Harpa veitir röðinni stuðning með afslætti á salarleigu, auglýsingum og aðstoð við markaðssetningu, með það að markmiði að stækka áheyrendahóp klassískra kammertónleika.

Áhugasamir þátttakendur sendi eftirfarandi upplýsingar á sigildir@harpa.is fyrir 12. mars næstkomandi:

  1. Heiti tónlistarmanna/tónlistarhóps.
  2. Fjöldi tónleika í röðinni (tilgreinið hvort óskað er eftir því að halda eina eða fleiri tónleika yfir veturinn).
  3. Óskadagsetning/ar fyrir hverja tónleika. Varadagsetning fyrir hverja tónleika. Athugið að aðeins eru örfáir dagar lausir fyrir áramót, en fleiri eftir áramót. Tónleikaraðir ganga fyrir stökum viðburðum.
  4. Drög að efnisskrá fyrir hverja tónleika.

 

Vinsamlegast,
fyrir hönd Hörpu,

Melkorka Ólafsdóttir, dagskrárstjóri tónlistar

 

 

Click to explore Harpa Concert Hall & Conference Centre on Street View!