Fræðslufundur FÍH – efni: listamannalaun

- Innsent efni

Fræðslufundur um listamannalaun

 

Föstudaginn síðastliðinn bauð FÍH félagsfólki sínu upp á fræðslufund um listamannalaun. Um kynninguna sá Bryndís Jónatansdóttir, verkefnastjóri hjá ÚTÓN, og sérstakur gestur var Ragnhildur Zoëga, sérfræðingur hjá RANNÍS.

Góð þátttaka var á fundinum og greinilegt er að mikill áhugi er á þessu málefni.

Glærurnar sem farið var yfir á fundinum má finna hér fyrir neðan. Allskyns spurningar komu fram á fundinum og hér má sjá samantekt á þeim helstu:

  • Einungis má sækja um eina umsókn í hvern sjóð. Það þýðir að ef sótt er um fyrir tveimur verkefnum sem eiga báðar heima í Tónskáldahluta sjóðsins þá er þeim báðum lýst í einni umsókn. Ef um er að ræða tvö verkefni sem eiga heima í ólíkum sjóðum, til dæmis annarsvegar Tónskáldahluta og hinsvegar Tónlistarflytjendahlutanum (eða Sviðslistahlutanum eða öðrum) þá eru gerðar tvær umsóknir.
  • Miklar umræður sköpuðust um hvaða áherslur fagnefndirnar hefðu og ljóst var að ákveðnir þættir liggja til grundvallar mati á umsóknum sem eru þær sömu fyrir allar fagnefndir en þó sé alltaf að einhverju leiti um óskrifaðar áherslur að ræða. Tekið var fram að fagnefndirnar eru tilnefndar af fagfélögunum innan hverrar greinar og ef fólk hefur athugasemdir eða ábendingar um mat á umsóknum þá er best að hafa samband við fagfélögin til að koma þeim á framfæri.
  • Talað var um tímalengd umsókna og kom fram að betra er að sækja um fleiri mánuði en færri, að því gefnu að verkefnið/verkefnin sem sótt er um fyrir nái yfir tímabilið sem sótt er um fyrir.
  • Athugasemdir komu fram um að reglur um hvernig sækja á um verkefni sem falla undir mismunandi sjóði, til dæmis myndskreyttar barnabækur, væru illa skilgreindar og kom fram að best væri að tala við fagfélögin til að koma þessum athugasemdum á framfæri.
  • Séu fleiri en einn aðili sem komi að verkefni skila allir inn sér umsókn, þar sem um listamannalaun fyrir einstaklinga er að ræða.
  • Verkefni sem sótt er um fyrir getur innihaldið undirbúningstíma og fleira ef hægt er að rökstyðja að umsækjandi verði í fullu starfi við verkefnið á þeim tíma.

 

Á heimasíðu Rannís má finna allar nánari upplýsingar um listamannalaun og umsóknarferlið. Ragnhildur Zoëga og samstarfsmaður hennar, Óskar Eggert Óskarsson, taka öllum fyrirspurnum opnum örmum og því hvetjum við félagsmenn til að hafa samband við þau ef upp koma spurningar. Hægt er að senda fyrirspurnir á listamannalaun@rannis.is og þá berast þær beint til þeirra.

Listamannalaun – FÍH kynning 18.9.20