60 milljónir til tónlistarskóla í Reykjavík
Gert er ráð fyrir 60 milljóna króna viðbótaframlagi samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga vegna uppsafnaðs rekstrarvanda nokkurra tónlistarskóla í Reykjavík. Fyrr í þessum mánuði var samþykkt bókun í borgarráði Reykjavíkurborgar þess efnis að borgin væri reiðubúin að leggja tónlistarskólum í Reykjavík fram 90 milljónir króna gegn því að ríkið legði fram 60 milljónir króna. 30 milljónir að auki kæmu úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
„Málið má rekja til ársins 2009 þegar Reykjavíkurborg boðaði mikinn niðurskurð á fjárveitingum til tónlistarnáms. Til að koma til móts við óskir sveitarfélaganna um fjárstuðning til tónlistarfræðslu gerðu ríkið og sveitarfélögin í kjölfarið með sér samkomulag um eflingu tónlistarnáms í maí 2011. Samkvæmt því veitti ríkið 480 m.kr. á ársgrundvelli sem styrk á móti kennslukostnaði í hljóðfæranámi á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi. Á móti skuldbundu sveitarfélögin sig til að taka yfir ný verkefni frá ríkinu að jafnvirði 230 m.kr. á ári,“ segir í frumvarpinu.
Fljótlega eftir að samkomulagið hafi hins vegar verið gert hafi komið í ljós að kennslukostnaður nokkura tónlistarskóla var orðinn hærri en ráð hafði verið fyrir gert. Það hafi mátt rekja til þess að fleiri nemendur höfðu verið teknir inn í skólana, lengri starfstíma þeirra og meiri launahækkunum en reiknað hefði verið með. Til að mæta þessum vanda hafi ríkið fallist á að veita tímabundið 40 milljóna króna framlag í fjáraukalögum 2012. Þetta framlag hafi verið veitt áfram og nemi árlegur styrkur í fjárlögum samtals 520 milljónum króna.
„Samkomulagið um eflingu tónlistarnáms var upphaflega gert til tveggja ára en hefur verið framlengt tvisvar sinnum með viðauka og rann síðasti viðauki út í árslok 2014. Nýtt samkomulag hefur ekki verið gert,“ segir ennfremur. Áréttað er að tímabundna samkomulagið frá 2011 hafi ekki falið í sér tilfærslu verkefna frá sveitarfélögum til ríkisins með þeim hætti að ríkið bæri ábyrgð á málaflokknum heldur hafi einungis verið um að ræða fjárstuðning ríkisins við lögákveðið verkefni sveitarfélaganna í samræmi við lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla
„Viðunandi fjármögnun tónlistarnáms er því alfarið á ábyrgð sveitarfélaga. Skilyrði fyrir framlaginu er að það renni eingöngu til þeirra skóla sem hafa safnað skuldum vegna þjónustustigs umfram ramma Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.“