Samkomulag um breytt fyrirkomulag lífeyrismála opinberra starfsmanna
Bandalag háskólamanna (BHM), BSRB og Kennarasamband Íslands (KÍ) undirrituðu í dag samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Með samkomulaginu er endi bundinn á viðræðuferli sem staðið hefur með hléum frá árinu 2009 og hefur haft að markmiði að samræma lífeyrisréttindi á opinberum og almennum vinnumarkaði.
Lengi hefur legið fyrir að lífeyriskerfi opinberra starfsmanna í núverandi mynd er ósjálfbært. Þannig hefur viðvarandi halli verið á A-deildum LSR og LSS (nú Brúar). Í samkomulaginu felst að ríki og sveitarfélög munu greiða upp halla A-deildanna og tryggja óskert réttindi núverandi sjóðfélaga LSR og Brúar. Verði nauðsynlegar lagabreytingar samþykktar á Alþingi í haust gengur nýtt lífeyriskerfi í gildi 1. janúar 2017.
Núverandi sjóðfélagar halda óskertum réttindum
Nýtt lífeyriskerfi opinberra starfsmanna mun byggja á aldurstengdri réttindaávinnslu sem kemur í stað jafnrar réttindaávinnslu og almennur lífeyrisaldur opinberra starfsmanna verður hækkaður í 67 ár. Það þýðir að réttindi á almenna og opinbera vinnumarkaðinum verða sambærileg.
Frá upphafi viðræðnanna hefur það verið markmið BHM að tryggja réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deildum LSR og LSS/Brúar. Samkomulagið tryggir þau og munu þeir halda óskertum réttindum með framlögum úr sérstökum lífeyrisaukasjóðum. Þeir munu eftir sem áður geta farið á eftirlaun 65 ára, kjósi þeir að gera það.
Launamunur milli markaða verður leiðréttur
Í samkomulaginu skuldbinda ríki og sveitarfélög sig til að vinna að því að leiðrétta launamun á milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna. Það er sameiginleg stefna fulltrúa launagreiðenda og bandalaga opinberra starfsmanna að laun og önnur kjör á opinberum vinnumarkaði séu samkeppnisfær. Þetta gildir einnig um laun og kjör félagsmanna sem hefja störf í nýju aldurstengdu kerfi.