Íslensku tónlistarverðlaunin 2016
Þann 16. febrúar var tilkynnt hverjir það eru sem fá tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2016. Það er óhætt að segja að 2016 hafi verið árið hans Emmsjé Gauta en hann hlaut alls níu tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem er glæsilegur árangur. Í flokki dægurtónlistar voru fleiri áberandi en Kaleo var atkvæðamikil og hlaut sex tilnefningar, Júníus Meyvant fékk fimm tilnefningar og Mugison og Sin Fang fengu síðan fjórar tilnefningar hvor. Í flokki djasstónlistar var það ADHD sem fékk flestar tilnefningar eða þrjár alls en í flokknum sígild og samtímatónlist hljóta Schola Cantorum, Guðný Einarsdóttir fyrir flutning á orgelverkum eftir Jón Nordal og Anna Þorvaldsdóttir flestar tilnefningar, eða tvær.
Alls verða veitt verðlaun í 29 flokkum að meðtöldum Heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Verðlaun verða líkt og áður veitt fyrir popp- og rokktónlist, fyrir djass- og blústónlist, sígilda- og samtímatónlist og í opnum flokki en nú bætast að auki við fjórir nýir verðlaunaflokkar: Verðlaun fyrir plötu ársins í leikhús/kvikmyndatónlist, fyrir plötu ársins í raftónlist og fyrir plötu ársins í rappi og hiphopi en einnig er bætt við verðlaunum fyrir rapp og hiphop-lagi ársins.
Tvenn verðlaun skera sig úr en það eru Bjartasta vonin í Popp, rokk, rappi og raftónlist og svo Tónlistarmyndband ársins. Bjartasta vonin er sem fyrr tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 og fer kosning fram á vef Rásar 2 þar sem hlustendur velja björtustu vonina. Tónlistarmyndband ársins er tilnefnt af Albumm.is og fer kosning fram á heimasíðu Albumm þar sem einnig er hægt að horfa á myndböndin tíu sem þóttu skara fram úr að mati dómnefndar.
Íslensku tónlistarverðlaunin verða haldin hátíðleg í Hörpu fimmtudaginn 2. mars og verða sýnd beinni útsendingu á Rúv.
Hér má sjá allar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2016: http://iston.is/tilnefningar2016/