Hlín Pétursdóttir Behrens: Gagnrýnin sem aldrei var skrifuð

 

Hlín Pétursdóttir Behrens.

Hlín Pétursdóttir Behrens.

Bandaríski tenórinn Jerry Hadley fjallaði eitt sinn um það í viðtali hvað væri mikilvægt fyrir unga söngvara til ná árangri í list sinni. Til dæmis að finna sér góðan kennara og stunda námið af kappi, en einnig væri nauðsynlegt að finna sér viðmið utan hins akademíska heims og fylgjast með tónlistarlífinu. Fara á tónleika og óperusýningar og hlusta á upptökur af söng frá mismunandi tímabilum. Þannig gætu þau skapað sér hinar bestu forsendur til að stunda sína list.

Við lestur á umfjöllun gagnrýnanda Fréttablaðsins um nýja uppfærslu Íslensku óperunnar á Don Giovanni get ég ekki annað en velt fyrir mér forsendum skrifanna og til að byrja með kemur tvennt upp í hugann. Annar vegar: Um smekk er erfitt að deila. Hins vegar: Hverjar eru forsendurnar sem við gefum okkur fyrir umfjöllun af þessu tagi?

Gagnrýnandinn tekur vonandi upplýsta ákvörðum um það sem hann skrifar og upplýsir jafnframt lesendur og tilvonandi áheyrendur um hvað sé í vændum á faglegan hátt. Harpa er hvorki óperuhús né leikhús. Hún virðist þó vera besti kosturinn í stöðunni á Íslandi á þeim tímum sem við lifum. Eldborg er salur þar sem hægt er að hvísla og senda fínustu blæbrigði tónlistarinnar upp á efstu svalir og þykir mér heldur súrt að söngvurunum sé legið á hálsi fyrir að hafa kjark til þess að nýta sér þessa töfra salarins.

Í þetta sinn virðist hafa verið tekin sú ákvörðun að halda umgjörð í lágmarki sem gerir ákveðnar kröfur til hins upplýsta áhorfanda. Ef mað­ur ætlar sífellt að vera að spyrja sig „Bíddu, heima hjá hverjum erum við núna? Hvert er hann að fara? Hvað­an er hún að koma?“ þá munum við ekki fá þær upplýsingar af umhverfinu, heldur orðum og gjörðum persónanna. Þessi nálgun er bæði klassísk (hjá Shakespeare lýsir því einhver yfir að nú séum við í Frakklandi og þannig er það þá bara) og nútímaleg, enda hefur alheimur leiklistarinnar rúmast í litlum svörtum kassa um áratuga skeið. Eða eins og í ævintýraóperu sem ég sá um árið þar sem falleg mær breyttist á augnabliki í skrímsli og kórinn hrópaði „Oj!“ og flúði af hólmi, þó að söngkonan hefði ekkert breyst, enda var þetta á rauntíma, en ekki í teiknimynd eftir Disney. Áhorfendur voru fullkomlega með á nótunum. Ekki flókið, en krefst samvinnu og ímyndunarafls.

Hvort vídeólist sem varpað er á rimlagluggatjöld bætir sýninguna eður ei, er svo álitamál, en annarri spurningu er ósvarað: Hefur fjarvera leikmyndar sem máluð er á viðarfleka áhrif á hljómburðinn?

Samskipti kynjanna eru hér í brennidepli, nándin er mikil, hvernig leysir leikstjórinn það? Eru tilfinningar milli persónanna augljósar? Eru kvenpersónurnar tvístígandi í sinni afstöðu til Don Giovannis eða er allt á hreinu?

Ef grannt er að gáð þá á sér stað mjög skýr þróun hjá þeim öllum sem er að mörgu leyti óvenjuleg og fer í aðrar áttir en sviðsetningar síðustu 10–15 ára hafa gert. Kolbrún Halldórsdóttir fer á kostum í persónuleikstjórn og sveigir á stundum af mikill fimi framhjá þeim hafsjó af klisjum sem bíða við hvert fótmál í sérhvert sinn sem nokkur snertir á þessu listformi.

Það sem upplýstur gagnrýnandi gæti líka tekið eftir og tekið afstöðu til er sú staðreynd að ein af aríum Zerlinu sem sárasjaldan heyrist, er sungin í þessari uppfærslu. Hún tekur af skarið og sýnir ákveðna afstöðu til samskipta kynjanna sem ekki kemur fram annars staðar í verkinu og kallast að nokkru leyti á við ákveðna aríu sem sungin er af annarri alþýðustúlku í óperunni Cosi fan tutte. Áhugavert, ekki satt? Annað sem hægt væri að mynda sér skoðun á og er merki um efnistök leikstjóra og hljómsveitarstjóra er sú staðreynd að seinni finalekaflanum er sleppt, endalok aðalpersónunnar eru endalok verksins. Er þetta vel heppnuð lausn?

Hafandi sungið í óperuhúsum á meginlandi Evrópu um tíu ára skeið, þar á meðal ófá hlutverk í óperum Mozarts og hafandi séð fjöldann allan af uppfærslum á verkum hans þá vil ég bara leyfa mér að fullyrða að svo fagleg efnistök bæði í hljómsveitargryfju og á sviði, og svo jafngóður söngvarahópur og svo glæsilegur og blæbrigðaríkur söngur sem nær að innstu hjartarótum heyrist ekki oft hér á landi eða annars staðar.