BHM skorar á stjórn LÍN að afturkalla skerðingu á framfærslulánum til námsmanna erlendis
BHM lýsir áhyggjum af nýjum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) sem takmarka möguleika námsfólks til að afla sér menntunar utan landsteinanna. Nýju reglurnar, sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest, fela í sér allt að 20% skerðingu á framfærslulánum til námsmanna erlendis á skólaárinu 2016–17. Frekari skerðing er boðuð á næsta skólaári. BHM tekur undir með Sambandi íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) sem hefur bent á að með nýju úthlutunarreglunum hafi fólk sem stundar nám erlendis orðið fyrir forsendubresti. Það hafi tekið ákvörðun um nám erlendis og gert áætlanir um það á grundvelli fyrri reglna en sjái nú fram á að forsendur þeirra séu brostnar. Að mati BHM er framkoma sjóðsins gagnvart þessum hópi óviðunandi. Bandalagið skorar á stjórn LÍN að afturkalla þá skerðingu sem nýju úthlutunarreglurnar fela í sér. Hætta er á að fjöldi námsmanna erlendis hrökklist frá námi vegna hennar. Slíkt yrði til mikils skaða fyrir íslenskt samfélag enda hefur sú fjölbreytta þekking sem námsmenn hafa í áranna rás aflað sér utan landsteinanna skilað því miklum ávinningi.
_____
Um Bandalag háskólamanna (BHM)
Bandalag háskólamanna er samtök 28 stéttarfélaga háskólamenntaðra með samtals rúmlega ellefu þúsund félagsmenn innan sinna raða. Um er að ræða háskólamenntað fólk sem starfar á öllum sviðum íslensks atvinnulífs, jafnt hjá ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og einkafyrirtækjum. Nánari upplýsingar um BHM má nálgast á heimasíðu bandalagsins, www.bhm.is.