Samningur undirritaður um stofnun listframhaldsskóla á sviði tónlistar

26.9.2016

Markmiðið er að stofnaður verði listframhaldsskóli á sviði tónlistar sem gefur nemendum sem hyggjast leggja stund á framhaldsnám í tónlist, kost á sérhæfðu undirbúningsnámi. Skólanum er ætlað að þjóna allt að 200 nemendum af öllu landinu sem ætla í áframhaldandi nám á sviði tónlistar. Lögð er áhersla á að nemendur ljúki stúdentsprófi.

Í samningnum felst að Menntaskóli í tónlist stofni einkarekinn listframhaldsskóla á sviði tónlistar sem uppfyllir öll skilyrði til að fá viðurkenningu samkvæmt lögum um framhaldsskóla og reglugerð viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi. Gert er ráð fyrir að á samningstímanum, sem er frá 1. september  2016 til 31. júlí 2017, sinni skólinn kennslu þeirra nemenda sem þegar hafa hafið nám í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og söng á miðstigi hjá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónlistarskóla Félags íslenskra hljómlistarmanna.

Í samningnum er kveðið á um að Menntaskóli í tónlist láti í té fullnægjandi gögn til að hægt sé að veita honum viðurkenningu um stofnun einkarekins listframhaldsskóla á sviði tónlistar. Við lok samningsins og að uppfylltum ákvæðum hans er gert ráð fyrir að gerður verði þriggja ára þjónustusamningur um rekstur skólans.

Einnig eru í samningnum ákvæði um framkvæmd og þar kemur meðal annars fram að skólanámskrá og upplýsingar um skólann verði birtar á heimasíðu skólans í júlí á næsta ári.undirritun-v-stofnunar-listframhaldsskola-i-tonlist