Er kórsöngur ekki menning?

Er kórsöngur ekki menning?

Kári Allansson skrifar:

 

Þann 15. desember síðastliðinn birtist frétt á Vísi og bar fyrirsögnina Biggest Loser meiri menning en Kórar Íslands. Inntak fréttarinnar er það að nefnd um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar samþykkti endurgreiðslu á 25% af framleiðslukostnaði vegna sjónvarpsþáttanna Biggest Loser en ekki var samþykkt að endurgreiða þennan hluta framleiðslukostnaðar vegna Kóra Íslands. Að því gefnu að fréttin sé rétt, þá vaknar sú áleitna spurning hvort nefndin um endurgreiðslu telji Kóra Íslands ekki falla undir menningu og á hvaða grundvelli sú niðurstaða er fengin.

            Nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar er stjórnvald og ákvörðun um endurgreiðslu er stjórnvaldsákvörðun sbr. álit Umboðsmanns Alþingis nr. 2572/1998. Því eiga stjórnsýslulög nr. 37/1993 við um þessa ákvörðun nefndarinnar.

Markmið laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi nr. 43/1999 er að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi, sbr. 1. gr. laganna. Í 3. mgr. 4. gr. laganna segir að nefndin um endurgreiðslur skuli hafa heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um skilyrði endurgreiðslunnar.

            Í 3. gr. reglugerðar nr. 622/2012 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi segir að skilyrði endurgreiðslu sé að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa. Þættirnir Kórar Íslands falla vel að þessu skilyrði endurgreiðslu enda hlýtur kórsöngur íslenskra kóra að teljast til íslenskrar menningar og framleiðsla þáttanna getur ekki gert annað en að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa. Sem þátttakandi í Kórum Íslands varð mér ljóst af samtölum mínum við framleiðendur þáttanna að þeir væru ekki síst framleiddir af hugsjón, enda var verið að vekja rækilega athygli á starfsemi kóra sem fá allt of litla umfjöllun í fjölmiðlum miðað við fjölda kórsöngvara á Íslandi og umfang starfsemi kóranna um land allt  

            Við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 622/2012 séu uppfyllt skal byggja á verkefnamati sem er tvíþætt og skiptist í menningar- og framleiðsluhluta. Undirritaður hefur ekki forsendur til að fjalla um framleiðsluhlutann, en í menningarhlutanum eru gefin stig fyrir eftirfarandi stafliði þar sem hver liður gefur 2 stig sé hann uppfylltur að fullu en 1 stig sé hann uppfylltur að hluta. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út lýsingu á stigagjöf á verkefnamatinu sem finna má á vefsíðu ráðuneytisins. Þar er rökstutt frekar hvað felst í mati á stafliðum a – h í menningarhlutanum.

            Hér á eftir verða raktir stafliðir a – h ásamt rökstuðningnum að baki þeim, með það að leiðarljósi að nefndin um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar gaf Kórum Íslands aðeins 3 stig í menningarhlutanum. 4 stig þarf til þess að uppfylla menningarhlutann. Leggja þarf til grundvallar að nefndin um endurgreiðslur er bundin af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaganna en við mat nefndarinnar á stafliðum a – h virðist einkum reyna á réttmætisregluna, jafnræðisregluna og rannsóknarregluna. Réttmætisreglan felur í sér að stjórnvöld leggi málefnaleg sjónarmið til grundvallar mati sínu og ákvörðunum, jafnræðisreglan lýtur að því að sambærileg mál fái sambærilega meðferð og rannsóknarreglan mælir fyrir um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Löggjafinn hefur raunar sérstaklega gert ráð fyrir því að nefndin um endurgreiðslur geti aflað álits sérfróðra aðila um skilyrði endurgreiðslunnar, en ekki verður ráðið af fréttinni af Vísi hvort nefndin hafi nýtt sér þá heimild.

  1. Söguþráður, viðfangsefni eða meginþema kvikmyndar eða sjónvarpsefnis byggir á atburðum sem eru hluti af íslenskri eða evrópskri menningu, sögu, þjóðararfi eða trúarbrögðum. Rökstuðningur: Stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort söguþráður eða efnistök byggi á tilteknum atburðum sem hafa mótað eða haft áhrif á íslenska/evrópska menningu, þjóðararf eða trúarbrögð. Til þess að hljóta stig fyrir þennan lið þarf verkefni að byggja á tilteknum atburðum sem hafa mótað íslenska/evrópska menningu eða vísa til þjóðararfs og trúarbragða.
  2. Framleiðslan byggir á sögupersónu eða einstaklingi úr íslenskum eða evrópskum menningararfi, sögu, samfélagi eða trúarbrögðum. Rökstuðningur: stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort söguþráður eða efnistök byggi á tiltekinni sögupersónu eða einstaklingi íslenskum/evrópskum menningararfi, sögu, samfélagi eða trúaarbrögðum. Fyrir þennan lið eru t.d. ekki veitt stig ef aðalsögupersónur eru skáldsagnapersónur.
  3. Söguþráður tengist íslenskum eða evrópskum stað eða staðháttum, umhverfi eða menningarlegu sögusviði. Rökstuðningur: stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort íslenskir/evrópskir staðir eða staðhættir, umhverfi eða menningarlegt sögusvið (e. cultural setting) tengist frásögn og söguþræði verkefnisins. Til þess að hljóta stig fyrir þennan lið þarf staður eða staðháttur að vera hluti framvindu eða efnistaka framleiðslunnar með einhverjum hætti.
  4. Söguþráður, handrit eða viðfangsefni byggir á bókmenntaverki eða er sótt til annarrar listgreinar (t.d. myndlistar, tónlistar) sem hefur menningarlegt vægi. Rökstuðningur: stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort handrit eða efnistök byggi á höfundarverki úr annarri listgrein.
  5. Söguþráður, handrit eða meginþema beinist að viðfangsefnum líðandi stundar sem hafa vísun til menningar, samfélagsgerðar eða valdakerfis og stjórnmála í íslensku eða evrópsku samfélagi. Rökstuðningur: stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort handrit eða efnistök beinast að viðfangsefnum sem hafa þýðingu fyrir íslenska/evrópska samfélagsumræðu á sviði menningar, samfélagsgerðar eða valdakerfis og stjórnmála.
  6. Framleiðslan endurspeglar mikilvæg íslensk eða evrópsk gildi, t.d. samfélagslega og menningarlega fjölbreytni, samfélagslega samstöðu, mannréttindi, jafnrétti, umburðarlyndi, minnihlutavernd og virðingu fyrir menningu annarra, fjölskyldugildi, umhverfisvernd, virðingu fyrir náttúru og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Framleiðslan beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd. Rökstuðningur: stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort handrit eða efnistök endurspegla þau gildi sem nefnd eru. Full stigagjöf er veitt ef framleiðslan leggur sérstaka áherslu á að fjalla um þau atriði sem nefnd eru.
  7. Verkefnið beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd. Rökstuðningur: stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort handrit eða efnistök framleiðslunnar beinast sérstaklega að tilteknum íslenskum/evrópskum siðum, venjum eða sjálfsmynd.
  8. Söguþráður, handrit eða viðfangsefni byggir á atburðum í samtíma eða sögu sem hafa þýðingu fyrir íslenskt eða evrópskt samfélag. Rökstuðningur: stigagjöf fyrir þetta skilyrði tekur mið af því hvort handrit eða efnistök framleiðslunnar beinast sérstaklega að tilteknum atburðum sem hafa áhrif á íslenskt/evrópskt samfélag.

            Ekki má gera lítið úr þeim vanda sem stjórnsýslunefndir standa frammi fyrir í störfum sínum. Þótt nefndin um endurgreiðslur hafi leiðbeiningar til að styðjast við í mati sínu og geti kallað eftir álitum sérfróðra, þá virðist hún þrátt fyrir það hafa nokkuð svigrúm til mats á því hvort skilyrði 3. gr. reglugerðar nr. 622/2012 séu uppfyllt. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að Kórar Íslands fái 3 stig en framleiðendur þáttanna höfðu fyrirfram gert ráð fyrir 12-14 stigum samkvæmt áðurnefndri frétt. Þessi munur er áhugaverður og er í raun kjarni málsins. Hvaða væntingar geta framleiðendur kvikmynda og sjónvarpsþátta haft til endurgreiðslu á framleiðslukostnaði þegar svona miklu getur munað á mati nefndarinnar og framleiðenda um menningarhlutann?

            Stjórnsýslulögin er í einfölduðu máli sett til þess að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir stjórnvalda. Á grunni lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og réttaröryggissjónarmiða, er nauðsynlegt að afgreiðsla stjórnvalda á lögbundnum endurgreiðslum sé gagnsæ og fyrirsjáanleg. Þar sem undirritaður hefur ekki önnur gögn undir höndum en fréttina frá 15. desember, eru ekki frekari forsendur til þess að fjalla hér um nánari rökstuðning nefndarinnar um endurgreiðslur á mati sínu á menningarhlutanum. Þess vegna verður spennandi að sjá úrskurðinn sem kemur í kjölfar kæru framleiðenda Kóra Íslands til æðra stjórnvalds.

            Markmið laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi nr. 43/1999 er, eins og áður segir, að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi. Til þess að lögin  geti náð markmiðum sínum, er það grunnforsenda að framleiðendur geti treyst því að nefndin um endurgreiðslur leggi málefnalegar forsendur til grundvallar mati sínu á menningarhlutanum.        

 Kári Allansson

 Höfundur er kórstjóri Karlakórsins Esju