Stjórn Reykjavíkur Loftbrúar hefur samþykkt breytingar á áherslum og umfangi sjóðsins. Í stað smærri mánaðarlegra úthlutanna í formi farmiða verður úthlutun sjóðsins nú ein á ári þar sem valin verða allt að fimm verkefni úr hópi umsækjenda, sem fá veglegt tveggja milljóna króna gjafabréf sem hægt verður að nota að vild í ferðir og aukafarangur með Icelandair.
Aðilar að Reykjavík Loftbrú eru Icelandair, Reykjavíkurborg, FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna), FHF (Félag hljómplötuframleiðenda) og STEF (Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar).
Með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á sjóðnum er styrkur frá Reykjavík Loftbrú hrein búbót fyrir tónlistarfólk sem getur nýtt gjafabréfið til að kaupa flug og aukafarangur með Icelandair en breytingarnar á Reykjavík Loftbrú eru gerðar til að geta stutt enn betur við bakið á tónlistarfólki sem er í markvissri útrás með sína tónlist. Markmiðið með Reykjavík Loftbrú er einmitt að styðja við bakið á íslensku tónlistarfólki sem vill hasla sér völl á erlendri grundu og kynna um leið Reykjavík sem tónlistar- og menningarborg og spennandi viðkomustað ferðamanna.
Opið er fyrir umsóknir um styrki frá Reykjavík Loftbrú og er umsóknarfrestur til og með 17. apríl. Allt tónlistarfólk, óháð tónlistarstíl og stefnu, sem verður með tónleika erlendis á árunum 2018 og 2019 getur sótt um styrk úr sjóðnum. Miðað er við að umsækjendur séu ekki á byrjunarreit, heldur séu komnir á legg, hafi gefið út efni með eigin verkum og/eða flutningi, séu með samstarfsaðila í utanumhaldi og framkvæmd tónleikahalds og geti lagt fram gögn um verkefni á erlendri grundu sem að mati fimm manna úthlutunarnefndar eru talin geta styrkt ímynd Reykjavíkur og Íslands alls sem uppsprettu framsækinnar menningar og öflugs tónlistarlífs.