Af hverju er þriðji hver tónlistarkennari ekki í verkfalli?

- Gunnar Hrafnsson

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins fimmtudaginn 13. nóvember sl. lét Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambandsins, hafa þessi orð eftir sér:

“Sko okkar fólk í Félagi tónlistarskólakennara, sem er 5% af félagsmönnum Kennarasambands Íslands, fer fram á svipaðar hækkanir og Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara fengu í samningum við sama aðila. Það virðist ekki falla í kramið hjá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það hefur truflað einnig líka að Félag íslenskra hljómslistarmanna samdi á öðrum forsendum heldur en kennarar höfðu samið.”

„Ástæðan er ekki sú að félagsmenn FÍH vilji ekki fá eðlilegar kjarabætur eða laun til samræmis við aðra kennara heldur réði ferðinni sú sýn okkar, sem í samningaviðræðunum stóðu, að önnur leið væri einfaldlega ekki fær. “

Hér er Þórður að vísa til þess að tónlistarkennarar innan raða Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) samþykktu nýverið kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Um er að ræða skammtímasamning sem rennur út 31. júlí nk. og ennfremur var undirrituð viðræðuáætlun um frekari þróun kjarasamnings. Ástæðan er ekki sú að félagsmenn FÍH vilji ekki fá eðlilegar kjarabætur eða laun til samræmis við aðra kennara heldur réði ferðinni sú sýn okkar, sem í samningaviðræðunum stóðu, að önnur leið væri einfaldlega ekki fær.

26 ára samstarfi FT og FÍH um gerð kjarasamnings tónlistarkennara var slitið á síðastliðnu ári að frumkvæði FT og þrátt fyrir endurteknar sátta-tilraunir af hálfu FÍH hefur forysta FT eindregið hafnað öllu samstarfi. Einnig gerði ríkissáttasemjari tillögu um sameiginlegar viðræður FÍH og FT við samninganefnd sveitar-félaganna um afmörkuð samnings-efni. Við samþykktum þessa tillögu umsvifalaust en formaður samninganefndar FT kaus að hafna henni. Bæði FT og FÍH hafa átt í viðræðum síðan í mars við samninganefnd sveitafélaganna (SNS). Mat SNS virtist framan af vera að leggja megináherslu á viðræður við FT og þá samkvæmt samningalínu FT, sem snýst um að ná jöfnuði við laun grunnskólakennara.

Við vorum á sama tíma í þeirri einkennilegu stöðu, að stærra félagið, FT, freistaði þess að gera kjarasamning fyrir sameiginlegan starfsvettvang félaganna án okkar aðkomu á nokkurn hátt. Þegar síðan FT boðaði verkfall, skapaðist samræðuvettvangur við SNS fyrir samninganefnd FÍH og því lyktaði með kjarasamningi sem við teljum ásættanlegan til skamms tíma fyrir okkar félagsmenn. Undarlegt hefur verið að heyra ýmsa í röðum FT tala um að FÍH hefði átt að sýna samstöðu með tónlistarkennara innan FT með því að fara í verkfall eða sleppa því að semja.

Þætti sama fólki ekki skrítið ef að gerð væri krafa til þeirra félags um að sýna samstöðu með félagi, sem neitaði öllu samstarfi við þá og væri að reyna að gera samning sem þeir ættu ekki að hafa neitt um að segja? Ég ítreka fyrir hönd félaga minna í FÍH að við sjáum ekki skynsemisglóru í þessum samstarfsslitum FT við FÍH. Það sem sagt er hér að ofan ber því vitni og sóknarfæri tónlistarkennara hljóta að liggja í að geta komið fram sem ein heild gagnvart viðsemjendum sínum.