Stofnun Menntaskóla í tónlist fagnað
Stofnun Menntaskóla í tónlist fagnað
Tónlistarskóli FÍH og Tónlistarskólinn í Reykjavík halda sameiginlega tónleika í Kaldalóni í Hörpu næsta sunnudag kl: 14:00. Á tónleikunum verður kynntur nýr Menntaskóli í tónlist og boðið verður upp á fjölbreytta og glæsilega efnisskrá. Þar koma fram stórsveit, kammerkór, strengjakvartett, brasshópur, söngvarar og fleiri áhugaverðir samspilshópar sem flytja verk úr ýmsum tónlistarstefnum.
Með stofnun Menntaskóla í tónlist taka tveir af öflugustu tónlistarskólum landsins höndum saman um að þróa nýjar og áhugaverðar leiðir í tónlistarnámi. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám í rytmískri (jazz, popp og rokktónlist) og klassískri tónlist og það verður hægt að ljúka stúdentsprófi frá skólanum með tónlist sem aðalnámsgrein. Hægt er að kynna sér starfsemi skólans á nýrri heimasíðu hans: www.menton.is og kynna sér námið nánar á tónleikunum á sunnudag.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Tónlistarskóli F. Í. H.
Sigurður Flosason