Carl Möller er látinn
Carl Möller, djasspíanisti og tónmenntakennari, lést aðfaranótt sunnudags eftir baráttu við krabbamein. Carl fæddist í Reykjavík árið 1942 og ólst þar upp.
Hann hóf sjö ára að læra á píanó hjá Sigursveini Kristinssyni sem síðar stofnaði Tónskóla Sigursveins. Tónlistin átti hug hans alla tíð en hann lék lengi með Hljómsveit Hauks Morthens og Sextett Ólafs Gauks. Þá tilheyrði hann hópnum sem hélt uppi Sumargleðinni um allt land um árabil.
Carl var í hópi þekktustu djasspíanóleikara þjóðarinnar. Árið 1978 hóf hann nám í tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík og lauk tónmenntakennaraprófi fimm árum síðar. Hann stundaði tónlistarkennslu við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar auk þess sem hann var um skeið organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík.
Foreldrar Carls voru Tage Möller, kaupmaður og tónlistarmaður, og Margrét Jónsdóttir Möller húsmóðir. Bróðir Carls er Jón Friðrik Möller tónlistarmaður, og hálfbróðir hans Birgir Möller hagfræðingur og forsetaritari, en hann lést árið 2012. Carl lætur eftir sig eiginkonu, Ólöfu Kristínu Magnúsdóttur, og fósturdóttur, Hrafnhildi Jónu Þórisdóttur.