Málfundur um fjölmiðla, menningu og listir

Málfundur um fjölmiðla, menningu og listir

 

Laugardaginn 16. febrúar stendur Bandalag íslenskra listamanna fyrir málþingi um fjölmiðla, menningu og listir á efri hæðinni í Iðnó við Tjörnina í Reykjavík.

Það er ekki oft sem listir og menning krauma upp á yfirborðið í fréttaflutningi og samfélagsumræðu með þeim hætti sem verið hefur í upphafi árs 2019. Myndlistin hefur átt sviðið, pálmatré í glersúlum og framsetning kvenlíkamans í merkum löngu látins myndlistarmanns.

Þessi nýlegu dæmi um list- og menningarumfjöllun hafa sett jafnt kaffistofur og „kommentakerfi“ á hliðina, á meðan yfirvegaðri umfjöllun týndist oftar en ekki í hávaða dagsins. Loks lokast hringurinn og fer þá jafnvel að snúast um umfjöllun og meðferð fjölmiðla sjálfra á efninu. Nú er komið að því.

Listin og fjölmiðlar eiga í snúnu sambandi, ekki síst á tímum samfélagsmiðla og áunnins athyglisbrests, sem virðist hrjá stóran hluta landsmanna. Eiga fjölmiðlar að skilgreina sig sem hluta af umhverfi listarinnar og taka þátt í að auka veg hennar og virðingu, eða er mikilvægara fyrir trúverðugleika fjölmiðils að tendra eldvegg milli ritstjórnar og listar, öðruvísi geti hann ekki fjallað um listina af hlutleysi.

Er  umræða undanfarinna missera einkenni á óþroskaðri menningarumfjöllun, eða lýsir hún bara fjölmiðlaumhverfi samtímans? Var hún dýpri og lærðari í löngum greinum í prentmiðlum fortíðarinnar, eða er samtíminn bara á þessari hraðferð að ekkert kemst á dagskrá að viti nema enn einn smelludólgurinn? Vilja listirnar eitthvað annað en gott „plögg“?

Frummælendur á málþinginu verða:

Einar Falur Ingólfsson – Umsjónarmaður menningarefnis á Morgunblaðinu.

Auður Jónsdóttir – Rithöfundur.

Starkaður Sigurðsson – myndlistarmaður og gagnrýnandi.

Málfundurinn hefst klukkan 14:00, laugardaginn 16. febrúar, á efri hæðinni í Iðnó og stjórn hans er í höndum Guðna Tómassonar, dagskrárgerðarmanns á Rás 1 Ríkisútvarpsins.

kveðja

 

Erling Jóhannesson

Forseti BÍL – Bandalags íslenskra listamanna

President of BIL – Federation of Icelandic Artists
PO Box 637
IS-121 Reykjavík
Iceland

Phone (+354) 8916338

www.bil.is