Um FÍH
Félag íslenskra hljómlistarmanna var stofnað 28. febrúar árið 1932.
Frá stofnun félagsins hefur það verið málsvari atvinnuhljómlistarmanna og tónlistarkennara og gætt hagsmuna þeirra. Baráttan hefur alla tíð verið hörð og frumherjarnir lögðu á sig þrotlausa vinnu, oftast launalausir, við að fá störf hljómlistarmanna metin og virt að verðleikum. Uppskeran er um margt glæsileg. Íslenskt tónlistarlíf skartar í dag fjölmörgum frábærum hljómlistarmönnum á öllum sviðum tónlistar. Árangur íslenskra hljómlistarmanna á erlendri grundu ber enn frekari vitnisburð um að tónlistaruppeldi og tónlistarlíf okkar er á réttri braut. FÍH hefur gegnt lykilhlutverki í þessari stórkostlegu þróun og lagt áherslu á að tryggja ávallt mannsæmandi kjör og efla menntun. En hver er staða FÍH í dag?
750 hljómlistarmenn eru nú meðlimir FÍH og hafa aldrei verið fleiri frá stofnun.
FÍH hefur aldrei boðið upp á fjölbreyttari þjónustu og aðstöðu en nú og forysta FÍH í kjara- og félagsmálum er kröftug, svo kröftug að sumum viðsemjendum þykir nóg um. Það er ekki ætlun okkar FÍH-manna að horfa einungis um öxl til þess sem vel hefur verið gert, við verðum að horfa fram á við því nóg er af vandamálum og viðfangsefnum. Eitt þarf þó að hafa hugfast; keðja verður aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar og árangur FÍH í sameiginlegum baráttumálum ræðst af samtakamætti hljómlistarmannanna sjálfra. Hópur manna stendur enn utan FÍH sem nýtur beint eða óbeint þess ávinnings sem unnist hefur í gegn um árin, en leggur ekkert af mörkum. Fjölmargir starfa enn á kjörum sem eru langt undir launatöxtum FÍH. Fjöldi hljómlistarmanna lætur aðra draga vagninn fyrir sig og firrir sig allri ábyrgð. Ert þú einn þeirra lesandi góður? Ef þú berð virðingu fyrir starfi þínu og vilt að aðrir geri það líka, þá áttu skilyrðislaust heima í röðum okkar FÍH manna.