Lög

 1. Nafn félagsins og tilgangur

  Nafn félagsins er: “Félag íslenskra hljómlistarmanna”, skst. FÍH.

  Starfssvið félagsins er allt landið.

  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

  Félagið er aðili að:

  • Bandalagi Háskólamanna (BHM)
  • Sambandi flytjenda og hljómplötuútgefenda S.F.H.
  • Innheimtumiðstöð höfundargjalda samkvæmt 11.grein höfundarlaga, I.H.M.
  • Alþjóðasambandi hljómlistarmanna (FIM)
  • Sambandi norrænna hljómlistarmanna (Nordisk Musiker Union).
  • Bandalagi islenskra listamanna (BÍL)
  • Samtóni. Samtökum höfundarétthafa.

  Tilgangur félagsins er:

  1. að gæta hagsmuna félagsmanna
  2. að ákveða eða semja um kaup og kjör hljómlistarmanna
  3. að auka kynni og góða samvinnu meðal þeirra, bæði fjárhagslega og félagslega
  4. að styðja félagsmenn í samningagjörðum og koma fram fyrir þeirra hönd út á við í kjaradeilum og öðrum sameiginlegum hagsmunamálum þeirra
  5. að tryggja hag félagsmanna m.a.með aðgengi að styrktar-, sjúkra- og orlofssjóðum
  6. að útbreiða skilning á menningargildi lifandi hljómlistar og vinna að fræðslu og menningarmálum meðal félagsmanna
  7. að stuðla að atvinnuöryggi félagsmanna.
  8. að vinna að bættum aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum.
  9. Að halda úti heimasíðu á veraldarvefnum með upplýsingum til félagsmanna um málefni þeirra ásamt tilboðum sem þeim berast hverju sinni.
 2. Inntökuskilyrði og nýir félagar

  • Fullgildur félagsmaður í FÍH getur hver sá orðið sem vinnur eða vill vinna hljómlistarstörf skv. kauptöxtum er félagið setur eða semur um við vinnuveitendur. Ganga skal frá skriflegri umsókn á þar til gert eyðublað og greiða félagsgjald fyrir einn mánuð eins og það er hverju sinni.
  • Full félagsleg réttindi öðlast félagsmaður fyrst er hann hefur greitt félagsgjöld í sex mánuði.

  Full félagsleg réttindi eru:

  • Forgangur til starfa eins og kjarasamningar kveða á um hverju sinni
  • Aðgangur að sjóðum félagsins og/eða sjóðum BHM samkvæmt ákvæðum hvers sjóðs
  • Kjörgengi og atkvæðisréttur á fundum félagsins
 3. Verksvið félagsfunda

  Fundir í félaginu eru:

  • Aðalfundur.
  • Almennur félagsfundur.
  • Trúnaðarráðsfundur.
  • Stjórnarfundur.
  • ðarráðsfundur.
  • Stjórnarfundur.

  Formaður stýrir félagsfundum eða tilnefnir fundarstjóra í sinn stað. Ritari ritar í gerðabók félgsins stutta skýrslu um það sem gerist á fundum, svo og allar tillögur er fram koma og getur afgreiðslu þeirra. Skal fundargerðin lesin upp í fundarlok eða byrjun næsta fundar. Formaður og ritari undirrita fundargerðir félagsins. Samþykkt fundargerð hefur fullt sönnunargildi um allt það, sem fram heiðursfélagarr farið á félagsfundum.

 4. Aðalfundur

  1. Aðalfundur skal haldinn á tímabilinu 1.apríl til 31.maí ár hvert og skal hann boðaður með 4 vikna fyrirvara bréflega eða með auglýsingu í blöðum, útvarpi og/eða á heimasíðu félagsins.
  2. Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Atkvæðisrétt á aðalfundi og félagsfundum hafa fullgildir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið. Allar kosningar eru bindandi og fari fram skriflega ef fleiri en einn eru í kjöri. Falli atkvæði jafnt skal kosið að nýju og fáist þá eigi úrslit ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum nema annað sé tekið fram í lögunum.

  Á aðalfundi skulu þessi mál tekin til umræðu og afgreiðslu:

  1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um framkvæmdir og starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
  2. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins til umræðu og samþykktar.
  3. Lagabreytingar, ef fyrir liggja tillögur um þær. Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund.
  4. Ákvörðun um félagsgjöld .
  5. Ákvörðun um greiðslu í Orlofsheimilasjóð FÍH og Sjúkrasjóð FÍH þeirra félagsmanna sem ekki eru launþegar.
  6. Kosning stjórnar, varastjórnar, tveggja manna í kjörstjórn og tveggja til vara, trúnaðarráðs, varamannatrúnaðarráðs, eins löggilts endurskoðanda, Tveggja félagskjörinna skoðenda og tveggja til vara auk orlofsheimilanefndar. Kosning fulltrúa í sérnefndir sem eru starfandi á vegum félagsins hverju sinni. Framboð skulu berast skrifstofu félagsins a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund. Stjórn er heimilt að tilnefna félagsmenn í stjórnir og ráð hafi ekki borist framboð fyrir tilskilinn tíma.
  7. Önnur mál.

5. Félagsfundur
Félagsfundur skal haldinn:

a) ef stjórn félagsins eða trúnaðarráð ákveður slíkt

b) ef 50 fullgildir félagsmenn eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Félagsfundi skal boða með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Í fundarboði skal geta fundarefnis. Þó má taka mál til afgreiðslu, þótt ekki hafi þess verið getið í fundarboði, ef helmingur mættra félagsmanna samþykkir það. Félagsfundi skal boða bréflega eða með auglýsingum í blöðum, útvarpi og /eða á heimasíðu félagsins. Félagsfundur hefur næst æðsta vald í öllum málefnum félagsins innan þeirra takmarka, sem lög þessi setja. Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.


6. Stjórn félagsins


• Stjórn félagsins skipa fimm menn og 2 til vara: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, meðstjórnandi og 2 varamenn, kosnir hver í sínu lagi. Kjörtími stjórnarmanna er 2 ár í senn. Miðað skal við að annað hvert ár séu formaður og 2 fulltrúar kjörnir í stjórn og hitt árið séu 2 fulltrúar kjörnir. Stjórn er heimilt að skipta með sér verkum.

• Stjórn FÍH fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda og fylgir eftir lögum þess og samþykktum.

• Stjórnarfundur telst löglegur ef minnst þrír fulltrúar sitja hann, þar af annað hvort formaður eða varaformaður.


7. Formaður


Formaður félagsins hefur á hendi daglegt eftirlit með starfsemi félagsins og gætir þess að allir trúnaðarmenn félagsins geri skyldu sína. Honum bera að fylgjast með því eftir mætti, að allir félagsmenn haldi lög félagsins og aðrar samþykktir. Hann ber ábyrgð á geymslu og varðveislu allra skjala félagsins og annarra skilríkja.


8. Varaformaður


Varaformaður skal, gegna störfum formanns í forföllum hans.


9. Ritari


Ritari félagsins heldur gerðabækur og ber á þeim ábyrgð.


10. Gjaldkeri


Gjaldkeri ásamt stjórn félagsins ber sameiginlega ábyrgð á sjóðum FÍH og eignum.

Gjaldkeri hefur á hendi fjármál FÍH og bókhald í samráði við stjórn félagsins. Sjóði félagsins skal ávaxta á sem tryggastan og arðbærastan hátt.


11. Kjörstjórn


Kjörstjórn stjórnar atkvæðagreiðslum um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslum sem ákveðnar hafa verið innan félagsins. Kjörstjórn skal kjósa á aðalfundi og í henni eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við atkvæðagreiðslu um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarráð þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.


12. Samninganefndir


Samninganefndir annast kjarasamningagerð f.h. félagsins og sérdeilda þess. Stjórn félagsins skipar í samninganefndir í samráði við sérdeildir. Að öllu jöfnu skal formaður félagsins vera formaður samninganefnda.


13. Starfsmenn félagsins


Stjórn félagsins er heimilt að ráða félaginu starfsmenn


14. Sjóðir félagsins eru:


1. Félagssjóður:

Í hann renna öll félagsgjöld félagsmanna og ber Félagssjóður kostnað af starfi félagsins.

2. Styrktar- og sjúkrasjóður

3. Orlofssjóður

4. Menningarsjóður

5. Starfsmenntunarsjóður FÍH og FT

Heimildarákvæði til stjórnar:

Stjórn félagsins hefur heimild til að taka upp samstarf við sjóði BHM s.s. Orlofsheimilasjóð, Sjúkrasjóð og Styrktarsjóð ef réttindi félagsmanna eru þar betur tryggð en í sjóðum félagsins.


15. Félagsgjöld


a) Innheimta félagsgjalda skal ákveðin á aðalfundi hverju sinni.

b) Félagsgjöld launþega skulu ákveðin sem hlutfall af launum og annast félagið innheimtu þeirra mánaðarlega. Heimilt er félaginu að leita samstarfs við aðra aðila vegna innheimtu félagsgjalda, s.s. banka, félaga og stofnana.

c) Félagsgjöld annarra skulu ákveðin sem fast mánaðargjald og hefur stjórn félagsins heimild til að ákveða fyrirkomulag innheimtunnar og flokkun félagsgjalda.

d) Nýir félagar, sem ekki hafa öðlast félagsleg réttindi, svo og félagar, sem eru meðlimir í öðru stéttarfélagi, skulu greiða sömu gjöld.

e)Félagsgjald er gjaldfallið fyrsta dag hvers mánaðar.

f) Hver sá félagsmaður sem skuldar meira en þrjá mánuði missir félagsréttindi sín, þ.e. vinnuréttindi, atkvæðisrétt og kjörgengi og rétt til þess að gegna trúnaðarstörfum í þágu félagsins þar til hann hefur greitt skuld sína að fullu.

g ) Ef félagsmaður sýnir fram á að hann hafi verið frá vinnu í einn mánuð eða lengur vegna veikinda, eða að hann hafi ekki haft neinar tekjur af hljómlistarvinnu sinni í einn mánuð eða lengur, skal honum ekki gert skylt að greiða nema hálft gjald fyrir þann tíma næst þegar félagsgjöldin falla í gjalddaga.

h) Námsmenn greiði einungis félagsgjald þegar þeir starfa.

i) Lífeyrisþegar og heiðursfélagar greiða ekki félagsgjald en halda engu að síður öllum félagsréttindum.


16. Ráðningarsamningar


Ráðningasamningar sem félagsmenn gera mega ekki á nokkurn hátt brjóta í bága við kjarasamninga félagsins.


17. Um aðstoð


Nú verður ágreiningur milli félagsmanna og atvinnurekenda og skal þá félagið veita félagsmönnum alla þá aðstoð er félagið getur í té látið.


18. Brottrekstur úr félaginu


Hver sá félagsmaður er brottrækur úr félaginu, sem að áliti félagsfundar hefur unnið því ógagn, bakað því tjón eða gert eitthvað til vansa svo og hver sá félagsmaður, sem ekki hlýtir lögum félagsins og samþykktum. Brottreksturinn getur verið tímabundinn og skal þá minnst í einn mánuð og mest í eitt ár, nema um mjög alvarlegt brot sé að ræða, þá er heimilt að víkja viðkomandi að fullu úr félaginu. Félagsfundur ákveður hversu lengi brottreksturinn skal vara. Stjórnin tilkynnir öllum

félagsmönnum bréflega um slíka brottrekstra, hvenær þeir gangi í gildi og hvenær þeim skuli aflétt og er félagsmönnum óheimilt að stunda vinnu með þeim félögum á meðan.


19. Um verkföll,kjaradeilur og samninga


Um verkföll,kjaradeilur og samninga skal fara samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr.80 frá 1938 með síðari breytingum og /eða lögum og kjarasamninga opinbera starfsmanna nr.94 frá 1986 , eða þeim lögum sem ofanritað kann að falla undir, t.d. lög nr.70 frá 1996 og lög nr.36 frá 1982.


20. Úrsögn úr félaginu


Úrsögn skal vera skrifleg og berast skrifstofu félagsins. Þó getur enginn sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun eða heimild til vinnustöðvunar hefur verið auglýst eða ákveðin af trúnaðamannaráði og þar til vinnustöðvun hefur verið aflétt.


21. Um gerðardóm


Verði ágreiningur milli félagsmanna, félagsins og einstakra félagsmanna má leggja hann undir úrskurð gerðardóms. Þá má hvorki félagið né einstakir félagsmenn leita til dómstóla út af slíkum málum meðan málið er til meðferðar hjá gerðadómi. Gerðardóm skipa 3 menn. Skulu aðilar skipa sinn manninn hvor, en BHM tilnefnir þann þriðja. Gerðardómur skal útkljá hvert mál innan eins mánaðar frá því hann er fullskipaður. Úrskurður gerðardóms er endanlegur og bindandi fyrir báða

aðila. Dómurinn ákveður hver greiða skuli kostnað þann, er af gerðinni leiðir.


22. Erindrekstur í þágu félagsins


Hvenær sem formaður eða hver annar stjórnarmeðlimur eða umboðsmaður félagsins annast málefni félagsins og verður fyrir tekjumissi vegna þess, skal félagið bæta honum það tap. Sömuleiðis skal félagið greiða ferðakostnað þessara manna í umræddum erindagjörðum. Erindrekstur formanns eða einhvers annars félagsmanns, sem hefur í för með sér kostnað fyrir félagið, skal háður samþykki stjórnar.


23. Skyldur félagsmanna


Félagsmönnum er skylt að hlýða lögum félagsins og samþykktum í einu og öllu.


24. Deildir félagsins


Heimilt er að starfrækja deildir innan félagsins, svo sem Einleikaradeild, Kennaradeild, Organistadeild, Sínfóníudeild, Jazzdeild, Söngdeild og Rokkdeild.

• Kennaradeild: Tónlistarkennarar

• Einleikaradeild: Þeir sem tekið hafa próf úr viðurkenndum tónlistarskólum eða leikið einleikshlutverk eða kammertónlist á opinberum hljómleikum.

• Sinfóníudeild: Fastráðnir starfsmenn S.Í.

• Jazzdeild: Starfandi jazzleikarar

• Organistadeild: Kirkjuorganistar.

• Söngdeild: meðlimir kóra og einsöngvarar

• Rokkdeild: dægurtónlistarmenn

Hver deild skal kjósa sér a.m.k. 3ja manna stjórn. Formaður félagsins eða aðrir stjórnarmeðlimir félagsins mega sitja deildarfundi.

Deildarstjórnir skipa í samninganefndir í samráði við stjórn félagsins. Heimilt er stjórn félagsins að veita deildum styrki til að vinna að framgangi deildanna .


25. Fjármál


Reikningsár félagsins er almanaksárið. Fyrir hvern aðalfund skulu reikningar félagsins endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og félagskjörnum skoðunarmönnum. Gjaldkeri skal hafa lokið við að ganga frá reikningum félagsins fyrir lok janúarmánaðar ár hvert og afhenda þá löggiltum endurskoðanda.

Endurskoðendur skulu skila stjórninni endurskoðuðum reikningum eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund ár hvert.


26. Lagabreytingar


Lögum félagsins má ekki breyta nema á aðalfundi og verða tillögur til lagabreytinga að hafa borist stjórn félagsins viku fyrir boðaðan aðalfund.

Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

Lagabreytinga skal geta í fundarboði.


27. Félagsslit.


• Félaginu verður ekki slitið nema ¾ hlutar allra fullgildra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.

• Verði samþykkt að leggja félagið niður skal BHM varðveita þær eignir félagsins sem ekki hafa löggildan vörsluaðila.

• Verði annað félag stofnað er starfar á sama grundvelli og nýtur sömu viðurkenninga og FÍH nú, skal vörsluaðilum þá skylt að afhenda umræddu félagi eignir þess til fullrar eignar.

• Um sameiningu félaga skal fjalla um á sama hátt og lagabreytingar.

Lagt fyrir aðalfund 31.maí 2010

Með samþykki þessara laga falla þegar úr gildi eldri lög félagsins